Hagnýtar upplýsingar

 

Hér má finna ýmsar hagnýtar upplýsingar. Ef listinn reynist ekki tæmandi hvetjum við farþega til að hafa samband við afgreiðslu ferjunnar í brottfararhöfnum, í síma 481-2800 

Við vekjum athygli á að mikilvægt er að farþegar mæti til innritunar eigi síðar en 30 mínútum fyrir auglýsta brottfarartíma. Allir farþegamiðar eru skannaðir inn þegar farið er um borð í ferjuna. Fimm mínútum fyrir brottför er skipinu lokað.

Bílastæði

Farþegar geta nýtt sér bílastæði við Landeyjahöfn og Þorlákshöfn án endurgjalds. Vinsamlegast athugið að rekstraraðili ferjunnar ber ekki ábyrgð á ökutækjum sem geymd eru við þessa staði.

HVERNIG KEMST ÉG Á STAÐINN?

Almenningssamgöngur í tengslum við siglingar Herjólfs eru í boði en rútuferðir eru bæði frá BSÍ og Mjódd í Reykjavík. Allar nánari upplýsingar um ferðir eru veittar í síma 540 2700 og á vef Strætó www.straeto.is. Vert er að taka fram að þessar áætlunarferðir eru ekki á vegum rekstraraðilla ferjunnar.

Við vekjum athygli á að akstur á milli Landeyjahafnar og höfuðborgarsvæðisins tekur um tvær klukkustundir í góðu færi. Farþegar eru hvattir til að gefa sér góðan tíma og virða hraðatakmarkanir. Aðgætið með góðum fyrirvara að bíllinn sé vel og rétt búinn fyrir ferðalagið til að minnka hættu á töfum á leiðinni.