Þjónusta um borð

aðstaða um borð

Í skipinu eru þrír farþegasalir, matsalur, sjónvarpssalur og setustofa á efri hæð farþegarýmis.

Í matsalnum er kaffitería þar sem boðið er upp á heitan mat, smurt brauð, sælgæti, kökur, kaffi og aðra drykki. Matsalurinn er bjartur og opin og rúmar um 130 manns í sæti. Sjónvarpssalurinn er tvískiptur með um áttatíu sætum þar sem hægt er að láta fara vel um sig. Setustofan á efri hæð er útbúin þægilegum stólum og borðum auk þess sem sófar og bekkir eru víða um skipið. Í aðalfarþegarými ferjunnar er sérstök aðstaða fyrir börn sem hjálpar til að láta tímann líða hraðar fyrir okkar ungu farþega.

Reynt er að gera allt til að upplifun farþega verði sem best og mælum við sérstaklega með því að njóta hins fallega útsýnis á meðan á ferðinni stendur.

VeitingarKaffitería er um borð þar sem boðið er upp á heitan mat, smurt brauð, sælgæti, kökur, kaffi og aðra drykki. Um að gera að njóta góðra veitinga á meðan á siglingunni stendur.
Hópar geta fengið tilboð í mat. Vinsamlegast sendið póst á herbryti@eimskip.is til að fá nánari upplýsingar.

Gæludýr

Aðstaða fyrir gæludýr er í sérrými á bílaþilfari. Þar eru staðsett fjögur mismunandi stór búr fyrir gæludýr. Farþegar sem ferðast með bíla mega hafa gæludýrin sín í bílnum á meðan á siglingu stendur. Farþegum sem ferðast með gæludýr er bent á að hafa samband við starfsmenn ferjunnar á bílaþilfari varðandi nánari upplýsingar.

Barnahorn

Um borð í ferjunni er leikhorn þar sem börn geta leikið. Barnahornið er inn af aðalveitingarými ferjunnar. Þar geta börn fundið sér ýmislegt til dundurs á meðan á siglingur stendur. Í barnahorninu eru einnig sýndar bíómyndir fyrir börnin.

Aðgengi fatlaðra

Aðgengi fyrir hjólastóla er með besta móti bæði í Vestmannaeyjum og Landeyjahöfn. Á báðum stöðum eru lyftur til að komast upp að landganginum og ættu flestar tegundir hjólastóla að komast fyrir í þeim. Landgangurinn er hallandi skábraut sem er nógu breið fyrir flestar tegundir hjólastóla, hallinn á landganginum getur þó verið mismunandi eftir stöðu sjávar.

Um borð í Herjólfi eru tvær lyftur ætlaðar almenningi, önnur er á bílaþilfarinu og hægt er að komast þaðan á klefaþilfar og aðalþilfar. Þessi lyfta er ekki stór en minni gerðir hjólastóla komast fyrir. Önnur lyfta er frá aðalþilfarinu upp á efsta þilfar ef farþegar vilja komast út á meðan á siglingu stendur.

Á afgreiðslustað Herjólfs í Þorlákshöfn er einnig lyfta frá afgreiðslunni upp að landganginum.

Ef með þarf eru starfsmenn ferjunnar ávallt boðnir og búnir að aðstoða.