Tilkynnning, 16.12.2022

Sæferðir hafa rekið ferjuna Baldur síðan árið 2014. Þrátt fyrir að margt hafi verið endurnýjað í ferjunni og að hún uppfylli öll skilyrði ferju af þessari stærð á þessu hafsvæði verður ekki fram hjá því horft að hún er komin til ára sinna. Síðastliðið vor óskuðu Sæferðir eftir því við Vegagerðina að önnur ferja yrði fundin í stað Baldurs fyrir veturinn, en Vegagerðin hafði þá nýlega framlengt samning um þær siglingar fram í maí 2023. Vélarbilanir í Baldri höfðu þá leitt til þess að stjórnvöld höfðu lýst því yfir að ferja af þessu tagi væri ekki heppileg til þessara siglinga og vildu Sæferðir af þeim sökum komast hjá því að skipinu yrði siglt yfir vetrarmánuðina.

 

Sæferðir hafa átt gott samstarf við Vegagerðina í gegnum tíðina með það að markmiði að halda uppi góðri, áreiðanlegri og öruggri þjónustu í siglingum á Breiðafirði. Aukning er á flutningum til og frá svæðinu í tengslum við kröftuga uppbyggingu í atvinnulífinu á Vestfjörðum og því mikilvægt að góðar samgöngur séu við svæðið. Vegagerðin efndi til útboðs nýverið fyrir aðra ferju fyrir þetta svæði en eins og staðan er núna er ekki ljóst hvenær það verkefni klárast og því líklegt að Sæferðir muni þurfa að sigla á Baldri með breyttum forsendum fram á næsta vor.

 

Siglingarviðmið hafa verið lækkuð frá því sem var, sem þýðir að núna er miðað við minni vindhraða og ölduhæð þegar aðstæður eru metnar fyrir brottfarir. Björgunaráætlun hefur verið uppfærð sem og viðbragðsáætlun fyrir svæðið sem almannavarnir, landhelgisgæslan, björgunarsveitir og aðrir viðbragðsaðilar koma að. Þá er sérstakur dráttarbátur til taks í Stykkishólmi til að auka öryggi sjófarenda á svæðinu og viðeigandi mönnun á honum tryggð.

 

Sæferðir vona að ný ferja verði komin í rekstur eins fljótt og auðið er, og benda á að upplýsingar um ferðir Baldurs og breytingar sem verða á áætlun vegna veðurs er að finna á heimasíðu Sæferða, seatours.is, og á Facebook síðu félagsins, Seatours Iceland.